Um Ævarandi hreyfingu – Sigurður Guðjónsson í viðtali við Lukas Kindermann 2022
Birt í tímaritinu Myndlist á Íslandi NO 2, 2022
Sigurður Guðjónsson var valinn fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum, sem fer nú fram í 59. sinn. Viðburðinum var frestað um ár vegna Covid-19 faraldursins en hann verður loks haldinn milli 23. apríl og 27. nóvember í ár. Þremur mánuðum fyrir opnun kom Lukas Kindermann, þýskur listamaður sem búsettur er í Reykjavík, í heimsókn á vinnustofu Sigurðar. Samtal þeirra veitir innsýn í verklag Sigurðar og hugmyndirnar sem hann er að þróa fyrir sýninguna Ævarandi hreyfing í Íslenska skálanum í Feneyjum.
Lukas Kindermann: Til hamingju með að hafa verið valinn fulltrúi Íslands á tvíæringnum 2022! Sýningunni var frestað út af faraldrinum en nú styttist loksins í að hún hefjist. Hvernig gengur? Getur þú látið eitthvað uppi um það sem þú ætlar að sýna?
Sigurður Guðjónsson: Þakka þér fyrir. Ég vona að við hittumst sem fyrst aftur í Feneyjum. Titill verksins er Ævarandi hreyfing og ég er að vinna með rýmið, orku og tíma til að búa til eins konar skúlptúr sem virkar á öll skilningarvitin. Vídeóinu er varpað á tvo sex metra langa fleka eða skjái: annar liggur á gólfinu en hinn stendur lóðréttur upp og mynda þeir rétt horn þar sem þeir mætast. Vídeóið sýnir mjög stækkaða mynd af málmryki sem hreyfist vélrænt, annars vegar upp í loft eftir lóðrétta skjánum en í átt að áhorfendum eftir lárétta ásnum. Myndefnið hefur verið unnið svo það er erfitt að átta sig á upprunalega samhenginu. Hljóðheimurinn kallast svo á við vídeóið og hreyfinguna, en hann hef ég unnið með tónskáldinu Valgeiri Sigurðssyni.
LK: Það er miður janúar og tvíæringurinn verður opnaður eftir þrjá mánuði. Hvað ertu kominn langt í framleiðslu á öllum þessum þáttum verksins og hvenær getur þú byrjað að setja upp sýninguna?
SG: Vídeóið og hljóðmyndin eru næstum tilbúin. Ég er núna í eftirvinnslunni á þeim hlutum. Við byrjum að setja upp í byrjun mars og það er mjög spennandi því þá fæ ég að sjá verkið á staðnum og verð að vona að það gangi upp eins og ég sé það fyrir mér. Mér finnst líka gott að leyfa innsetningunni að lifa svolítið fyrir opnun og sá tími nýtist líka til að mynda og skrásetja verkið fyrir sýningarskrá.
LK: Hefur þú getað verið eitthvað í Feneyjum, farið í Arsenale og séð rýmið sem verkið verður í?
SG: Já, en þetta er búið að vera svolítið súrrealískt. Ég var á leiðinni þegar öllu var lokað og tvíæringnum frestað. Ég komst í heimsókn í september 2021. Það var mikill léttir að sjá loksins nýja rýmið sem verður skáli Íslands.
LK: Hvaða áhrif höfðu þessar aðstæður á vinnu þína? Var verkið þegar fullfrágengið eða fékk það að þróast áfram á biðtímanum?
SG: Ég vildi frá upphafi skapa upplifun fyrir áhorfendur sem væri innblásin af rýminu svo það erfiðasta var að þurfa að bíða án þess að hafa séð rýmið, stærð þess og fundið tilfinninguna í því. Ég held ég geti sagt að ég hafi ákveðið, í raun og veru, hvert ég vildi fara með verkið eftir að ég hafði komið til Feneyja í september og fengið að sjá rýmið. Þá sá ég hvernig rýmið virkaði og þá varð auðveldara að ákveða hvað ég vildi búa til.
LK: Finnst þér að verk þín breytist eftir því rými sem þau eru í?
SG: Já, maður fær alltaf nýtt sjónarhorn á verkið út frá nýju umhverfi. Þegar verkinu er ætlað að búa til upplifun fyrir áhorfendur sem koma í rýmið verður rýmið sjálft – og tónlistin – að skúlptúr. Þetta er samtal milli rýmisins, hins sjáanlega listaverks og hljóðsins eða kórsins og vonandi heldur rýmið lagi við verkið og gefur því nýja vídd. Einu sinni var verki eftir mig varpað á gólfið í gamalli kapellu og fimm mánuðum seinna setti ég sama verk upp í hlöðu. Frásögnin varð gerólík. Í kapellunni varð það að einhverju helgilegu – auðvitað – eða vakti hugleiðingar um heimsendi, allt eftir áhorfandanum. Á bóndabænum varð öll stemningin verklegri og í huganum sá maður vélar og í kringum mann voru verkfæri bóndans um alla hlöðuna. Táknræna merkingin varð allt önnur.
LK: Þú lýsir verkinu sem skúlptúr fyrir öll skynfærin. Nú erum við hér á vinnustofunni hjá þér og í kringum okkur er hráefnið í verkið. Hvert er ferlið við að setja saman sjáanlega hluta sýningarinnar?
SG: Vinnuferlið við sjónræna hlutann felst í tilraunum mínum með efniviðinn, með hlutinn, ýmsar linsur, myndavélina, ljós og hreyfingu. Svo mynda ég ferlið í rauntíma og þá snýst allt um að horfa og fanga augnablikið. Verkið er í rauninni ein löng taka svo ferlið snýst um að taka vel eftir og bíða eftir augnablikinu þegar allt kemur saman í einu skoti. Það getur verið mikil áskorun að vinna svona því það tekur tíma að finna andartakið, efnið og réttan fókus – stundum þarf að mynda það sama hundrað sinnum til að ná réttri niðurstöðu. Þannig að þetta er hægfara ferli og maður þarf að þreifa sig áfram. Ég vinn myndefnið síðan mjög lítið eftir á en það snýst aðallega um að fínstilla hraða, liti, hreyfingu og stundum að trufla myndina aðeins. Hugmyndin er sú að þegar þú upplifir verkið, uppsett, fáir þú meiri tilfinningu fyrir hlutföllum og stærð. Þú dregst lengra inn í landslag myndefnisins í samtali við massífa og alltumlykjandi hljóðheiminn.
LK: Og myndbandið er ein taka?
SG: Já, engin klipping. Þetta er bara ein taka.
LK: Hljóðið er ekki beintengt myndefninu eða þetta er ekki hljóðið í því sem við sjáum. Hvernig fléttast þessir tveir þættir saman?
SG: Hljóðmyndin er innblásin af myndefninu og af innsetningunni en ég vann hana í samstarfi við tónskáldið Valgeir Sigurðsson, sem hefur verið mjög gaman. Ég myndi segja að þetta væru ljóðræn tengsl. Myndefnið hefur vissa kornótta áferð og það kallast á við rafhljóð sem eru meðhöndluð eftir granular synthesis tækni svo þau mynda grófkorna þoku af hljóðum. En þetta er ekki vélarhljóð sem kemur frá myndefninu. Það er frekar hljóðmynd í margbrotnum hlutum sem hver getur vonandi upplifað á sinn hátt í rýminu.
LK: Kemur myndin alltaf fyrst?
SG: Ekki alltaf en í þessu tilfelli var það þannig.
LK: Með þessu breytilega hljóði skiptir þú líka hinu myndræna í kafla.
SG: Eitt hljóð eða tónn getur haft mikil áhrif á skynjun manns á verkinu svo það er stór hluti af vinnunni að finna jafnvægi á milli hljóðs og myndar. Þetta snýst um tilfinningu og ferlið getur tekið mjög langan tíma. Hljóðið þarf að tengjast og flæða rétt en ekki taka yfir eða stríða gegn því myndræna. Það verður að smella.
LK: Samþætting ljóss og hljóðs í rými hefur sterk líkamleg áhrif. Hve mikilvæg er þessi upplifun fyrir verkið?
SG: Ég mundi segja að hún væri mjög mikilvæg – það er þarna sem allt kemur saman. Ég held að ég sé alltaf að leita að þessari upplifun. Það er hugmyndin að upplifa innsetningu eins og þessa næstum eins og tónlist. Kúnstin er að fínstilla allt þar til maður finnur það sem maður var að leita að.
LK: Íslenska sýningin verður þetta árið í Arsenale. Munt þú nota arkitektúrinn eins og hann er eða smíðar þú sérstakt rými fyrir þína innsetningu?
SG: Sýningin verður í fyrsta sinn í Arsenale og það er spennandi því það er eitt aðalsýningarsvæði tvíæringsins. Ég nota arkitektúrinn á vissan hátt en set verkið þannig upp og felli hreyfimyndina að umhverfinu að það myndar um sig annað rými.
LK: Hve mikilvægt finnst þér það almennt að bregðast við rýminu sem fyrir er? Vinnur þú sérstaklega inn í rýmið eða býrðu til sérstakt rými fyrir verkin?
SG: Það hefur alltaf verið mikill hluti af mínu ferli að fá innblástur af og bregðast við því hvernig ég upplifi rýmið. Þetta hefur birst á ýmsan hátt í vídeóverkum mínum og innsetningum. Undanfarið hef ég meira verið að velta því fyrir mér hvernig vídeó og hljóð geta virkjað sýningarrýmið sjálft, eins og að móta höggmynd.
LK: Sögulega tengir maður skúlptúr, höggmyndina, við mjög efnisbundna listsköpun. Andstætt því hefur þú fengist við vídeóvörpun í mörg ár. Hvernig tengist ljósvörpunin hinu efnislega í þínum huga?
SG: Með myndvörpun verða til áhrif sem skipta verkið miklu máli. Það flæðir betur og verður ljóðrænna en á flötum skjá, þótt flatur skjár geti virkað vel fyrir annars konar verk og áhrif. Ég hugsa alltaf um vörpunina í sköpunarferlinu og að mínu mati verður það allt önnur upplifun, svo það bætir mikilvægri vídd við verkið.
LK: Þetta er mjög óefnisleg tækni. Er það meðvitað að vinna þannig?
SG: Ég hef aldrei tekið fasta ákvörðun um það en þetta hefur þróast þannig meðfram tækninni sem ég nota mest, það er að segja vídeó og hljóð. Á sama tíma er myndefnið efnislegt og ég er alltaf að leita að efni með því að mynda hluti eða vélar.
LK: Þú hefur skapað ýmis verk sem vísa til gamallar tækni og véla og Monica Bello hefur sagt að þið hafið rætt um fornleifafræði tækninnar þegar þið hófuð ykkar samtal við undirbúning á Feneyjaferðinni. Ég safna sjálfur alls konar dóti á vinnustofuna mína. Ert þú líka safnari?
SG: Fram að þessu hef ég ekki safnað hlutum kerfisbundið til að vinna verk mín. Ég fer til dæmis ekki á haugana að leita að hráefni. Í mögum tilfellum eru þetta hlutir sem ég hef haft í kringum mig lengi eða berast mér fyrir tilviljun. Ég hef tvær vinnustofur: önnur er fyrir allt dótið og þar geri ég tilraunir og prófa mig áfram en hin er fyrir eftirvinnslu. Sumir hlutir sem ég geymi eru mér kærir af því að þeir hafa verið hluti af sköpunarferlinu og kannski er ég að búa til minn eigin ruslahaug. Eins og þú sérð þá er alls konar gamalt dót og drasl á vinnustofunni.
LK: Það er plastbox með einhverju á skrifborðinu þarna. Er þetta málmrykið sem þú notaðir í Feneyjaverkið?
SG: Já, þetta er efnið sem ég notaði. Ég á fullt af svona boxum. Hér er líka annað frá síðustu sýningu.
LK: Ætlar þú að geyma það? Það er svo fallegt að vita að þetta skuli vera tvíæringsverkið þitt.
SG: Já, ég geymi þetta því það er ein af kveikjunum og mikilvægur byrjunarpunktur. Hráefnið kemur oft út úr undarlegum augnablikum. Meðal annars að koma í málmsmiðju í Garðabæ og fá eitthvað hjá starfsfólkinu – upphafið að nýju ferðalagi – og ég get gert tilraunir með efnið, stækkað það upp og umbreytt því á ýmsan hátt.