Leiðni
Reykjavík Art Museum
20.10 - 19.02. 2023
Sigurður Guðjónsson hefur á ferli sínum gert tilraunir með fjölbreytt úrval efna, allt frá vélbúnaði og heimilistækjum til íhluta og brotajárns. Hann meðhöndlar ljós, hreyfingu og hljóð í hugmyndaríku ferli sem birtist með ýmsu móti í verkum hans. Á þessari sýningu notast Sigurður við gamaldags tæki og miðla eins og glóperur, útvarp, segulband og skyggnuvél. Hann grandskoðar þessa hluti og sýnir formræna eiginleika þeirra á skjám og í innsetningum. Hið umfangsmikla nýja rýmisverk, Oscillation (sveifluhreyfing), er sýnt hér í fyrsta skipti, ásamt eldri verkum sem gerð voru á árunum 2016 til 2021.
Upp á síðkastið hefur listamaðurinn ráðist í gerð æ umfangsmeiri rýmisverka sem samanstanda af skúlptúr og myndbandi þar sem hann hugar sérstaklega að hreyfingu áhorfenda í rýminu. Í Oscillation kannar Sigurður möguleika á umbreytingu rýmis í gegnum myndmál hreyfimyndarinnar. Líkt og verk hans fyrir íslenska skálann á Feneyjatvíæringnum, Ævarandi hreyfing, víkkar verkið út takmarkanir forms og rýmis, að þessu sinni með því að brengla myndina fyrir tilstuðlan lagnaefnis sem er notað sem yfirborð til vörpunar. Sívalningarnir standa upp á endann í beinni röð og á þá er varpað mynd sem öðlast fyrir vikið öldóttan blæ. Efniskennd verksins er ýkt með hreyfingum, titringi og sveiflum litanna sem koma sterk fram í myrkvuðu umhverfinu.
Verkin á sýningunni eiga sér samsvörun í arfleifð mínimalisma og höfða til beinnar upplifunar áhorfenda. Sigurði er einkum hugleikið að kanna eiginleika tíma og rúms, sem og síbreytilega skynjun á fyrirfram gefnum föstum í umhverfi okkar. Hann beinir sjónum að hinum fjöldaframleiddu hlutum, virkni þeirra og samsetningu – sem víbra og bjagast í gegnum nærmynda töku og uppstækkun. Þessar myndir eru rammaðar inn á skýran hátt með því að nota skjái og inngrip í rýmið sem ýta undir ummyndunarferlið. Listamanninum tekst að koma einföldustu formum og myndgerðum á framfæri og forðast að hlaða þar á annarri merkingu umfram þá sem hlýst af því að breyta sjónarhorninu. Verk hans eru ekki háð línulegri frásögn, en þess í stað takast þau á við púls efnisins og hinar viðvarandi tilfærslur og breytingar sem eiga sér stað á jaðrinum, ferli sem verða okkur fyrst aðgengileg í gegnum myndavél eða linsu.
Leiðni dregur fram tilhneigingu listamanns ins til þess að leita uppi einföld og greinanleg form, áherslu hans á að koma til skila efnis kennd sem og tengsl verkanna við rýmið sem umlykur þau. Hvert verk á sýningunni býður áhorfandanum að íhuga heildarsam setninguna. Svo virðist sem hver innsetning hvetji okkur til að hugsa um nærliggjandi verk og rýna í rýmið í leit að óhöndlanlegri merkingu; að upplifa eiginleika hlutfalla, umfangs, rúmmáls, framvindu, umbreytinga, ómunar, mótunar, þyngdarafls og léttleika. Í ólíkum sjónarhornum á milli verka gegnum rýmið skapast nærvera og skírskotun til hreyfingar sem kallar fram sterk sjónræn og rýmiskennd viðbrögð. Hljóð er lykilatriði í verkunum og helst í hendur við það rými sem tekur við þegar myndinni sleppir og mörkin á milli þeirra verða óljós. Þrátt fyrir fábreyttan og dunandi óminn ýtir sam hljómur verkanna undir það ferli sem hvert þeirra spannar.
Á sýningunni Leiðni er tilfinningin fyrir eiginleikum efnis sterkari en fyrir hlutnum sem slíkum. Listaverkin á sýningunni opna fyrir okkur heillandi mynd og hljóðheim sem miðlar áhuga Sigurðar á efnisheiminum í kringum okkur. Þessi einstaka samsetning vekur athygli á eðli tíma og rúms, sem og eiginleikum efnis á jaðri skynjunar okkar.
Mónica Bello 2022